03.05.12
Útgáfa ríkissjóðs á skuldabréfum í bandaríkjadölum á erlendum mörkuðum

Ríkissjóður Íslands hefur í dag gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 1 milljarði Bandaríkjadala, sem jafngildir um 124 milljörðum króna.  Skuldabréfin bera fasta vexti og eru gefin út til 10 ára á ávöxtunarkröfunni 6,0%. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 4 milljörðum Bandaríkjadala.  Fjárfestahópurinn samanstendur aðallega af fagfjárfestum frá Bandaríkjunum og Evrópu.  Skuldabréfaútgáfan kom í framhaldi kynningarherferðar í Bandaríkjunum og Evrópu.  Umsjón var í höndum Deutsche Bank, J.P. Morgan og UBS Investment Bank.

„Þessi aðgerð markar heilmikil tímamót fyrir Ísland og er afar jákvæð fyrir íslenskt efnahagslíf“, segir Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra „Við erum með þessu að fylgja eftir vel heppnaðri skuldabréfaútgáfu frá því í fyrra á bréfum sem gefin voru út til skemmri tíma.   Viðbrögð fjárfesta eru mjög ánægjuleg, eftirspurn er tvisvar sinnum meiri en í síðustu skuldabréfaútgáfu og fjöldi þátttakenda í útboðinu er einnig tvöfalt meiri en þá. Þetta er fyllilega í samræmi við stefnumörkun okkar í lánamálum ríkisins þar sem markmiðin eru meðal annars þau að tryggja aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum til lengri tíma og að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta."

 

Aðrar fréttir

Skiptiútboð óverðtryggðra ríkisbréfa RIKB 20 0205

Föstudaginn 18. maí kl. 11:00 fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins með tilboðsfyrirkomulagi. 

Boðin verða til sölu óverðtryggð bréf í flokknum RIKB 20 0205. Heildarfjárhæð samþykktra tilboða verður tilkynnt að loknu útboði. 

Athugið að aðeins er hægt að kaupa bréf í RIKB 20 0205 með sölu á RIKB 19 0226, sem fellur á gjalddaga 26. febrúar 2019. Lánamál ríkisins kaupa RIKB 19 0226 á fyrirfram ákveðnu verði þ.e. hreina verðinu 103,090 (105,151644 með áföllnum vöxtum m.v. 100 kr. nafnverðseiningu) m.v. uppgjör 23. maí 2018. Til skýringar þá jafngildir verðið 4,50% í ávöxtunarkröfu. Andvirði bréfanna ásamt áföllnum vöxtum kemur þá sem greiðsla fyrir kaupum á nýjum bréfum.

Í ljósi stærðar RIKB 20 0205 eru fjárfestar hvattir til þess að nýta sér þetta tækifæri til að taka þátt í skiptiútboðinu og eignast bréf í flokknum.

Fréttatilkynning (pdf)
Útboðsskilmálar (pdf)

Niðurstöður viðbótarútgáfu RIKB 28 1115 og RIKB 22 1026

Samkvæmt 5. grein í skilmálum um útboð ríkisbréfa, sem haldið var 4. maí stóð aðalmiðlurum til boða að kaupa 10% af andvirði þess sem selt var í útboðinu á söluverði samþykktra tilboða. Að þessu sinni nýttu aðalmiðlarar sér kaupréttinn í RIKB 28 1115 fyrir 120 m.kr. og í RIKB 22 1026 fyrir 142 m.kr. að nafnvirði. Heildarstærð eftir útboðið í RIKB 28 1115 er nú 53.868.601.519 kr. og RIKB 22 1026 er nú 81.602.800.000 kr. að nafnvirði .  Uppgjör er 9. maí 2018.