15.03.23
Samningar í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði

Fjármálaráðherra felur Lánamálum ríkisins hjá Seðlabanka Íslands að gera samninga í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði.

Innlendir aðilar sem hafa starfsleyfi skv. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hafa nauðsynlegan búnað til þess að taka þátt í útboðum ríkisverðbréfa og geta sýnt fram á öruggt uppgjör viðskipta hjá Seðlabanka Íslands, geta óskað eftir því að gerast aðilar að samningunum.

Aðalmiðlarar hafa einir heimild til þess að leggja fram tilboð í útboðum þar sem markflokkar ríkisverðbréfa eru boðnir til kaups eða sölu. Einnig fá þeir aðgang að sérstakri fyrirgreiðslu t.d. í formi endurhverfra viðskipta með ríkisverðbréf, í samræmi við reglur og skilmála.

Aðalmiðlarar annast viðskiptavakt á markflokkum ríkisverðbréfa. Aðalmiðlurum er skylt að setja fram tiltekna lágmarksfjárhæð kaup- og sölutilboða í hvern markflokk ríkisbréfa með hliðsjón af hámarksmun sem tilgreindur er í samningunum.

Frekari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi sýnishorni af samningi í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði. Þeir aðilar sem hyggjast gerast aðalmiðlarar með ríkisverðbréf eru beðnir um að senda rafrænt undirritaða samninga til Lánamála ríkisins fyrir klukkan 16:00 föstudaginn 17. mars 2023.

Frekari upplýsingar veitir Björgvin Sighvatsson forstöðumaður hjá Lánamálum ríkisins í síma 569 9600.

Samningur sýnishorn (pdf)

Aðrar fréttir

20.10.25
Ríkisbréf
Viðskiptavakt hefst með RIKS 50 0915

Í framhaldi af útboði sem haldið var föstudaginn 17. október sl. og með vísan til aðalmiðlarasamnings í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði dags. 21. mars 2025, hefur verið ákveðið að hefja viðskiptavakt með RIKS 50 0915 frá og með uppgjörsdegi útboðsins þann 22. október 2025. Aðalmiðlarar verða skuldbundnir til þess að setja fram kaup- og sölutilboð fyrir að lágmarki 50 m.kr. að nafnverði í flokkinn. Frá sama tíma verður fyrirgreiðsla í formi endurhverfra viðskipta til hvers aðalmiðlara 2 ma.kr. að nafnverði.

Starfsfólk Lánamála ríkisins veitir nánari upplýsingar í síma 569 9994. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið [email protected].

Tilkynning um útboð ríkisbréfa - RIKS 50 0915 - Skiptiútboð eða greiðsla með reiðufé
Flokkur RIKS 50 0915
ISIN IS0000037794
Gjalddagi 15.09.2050
Útboðsdagur 17.10.2025
Uppgjörsdagur 22.10.2025
10% viðbót 21.10.2025
   
Uppkaupsflokkur RIKS 26 0216
Uppkaupsverð (clean) 98,4800

Á útboðsdegi, milli kl. 10:30 og 11:00, fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins á ríkisbréfum í þeim flokki, með því ISIN númeri og með þeim gjalddaga sem fram kemur í töflunni hér að ofan. Um 10% viðbótarkaupréttinn gildir 6. gr. í almennum útboðsskilmálum ríkisbréfa. Ríkisbréfin verða afhent rafrænt á uppgjörsdegi.

Greiða má fyrir flokkana með reiðufé eða með uppkaupsflokknum á uppkaupsverði.

Greiðsla í reiðufé þarf að berast Seðlabankanum fyrir kl. 14:00 á uppgjörsdegi. Ef greiðsla er í formi bréfa í uppkaupsflokki þarf tilkynning um magn þeirra að berast fyrir kl. 14:00 á útboðsdegi. Í því tilviki er verðmæti uppkaupsbréfanna metið á uppkaupsverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum (þ.e. dirty price).

Lánamál ríkisins greiða ekki þóknun vegna kaupa á RIKS 26 0216.

Að öðru leyti er vísað til lýsingar skuldabréfaflokksins og almennra útboðsskilmála ríkisbréfa á heimasíðu Lánamála ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Oddgeir Gunnarsson, Lánamálum ríkisins í síma 569 9635.