20.05.25
Ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum

Ríkissjóður Íslands gaf í dag út skuldabréf að fjárhæð 750 milljónir evra, jafnvirði um 109 milljarða króna. Skuldabréfin bera 2,625% fasta vexti og voru gefin út til 5 ára á  ávöxtunarkröfunni 2,672%. Andvirði útgáfunnar verður varið í að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og endurfjármagna útistandandi evrubréf. Samhliða tilkynningu um útboð á nýju skuldabréfi var tilkynnt um að ríkissjóður gerir tilboð í endurkaup á útistandandi skuldabréfi í evrum sem er á gjalddaga á næsta ári. Tilboðið stendur til föstudagsins 23. maí.

Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam heildareftirspurn um 4,4 milljörðum evra eða tæplega sexfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af eignastýringarsjóðum, bönkum, seðlabönkum, lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum Citibank, Barclays Bank, JP Morgan og BNP Paribas.  
                                                                                               
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra: 
„Það er mjög ánægjulegt að sjá hinn mikla áhuga sem fjárfestar sýna útgáfu ríkissjóðs og þau bættu kjör sem erum að ná að þessu sinni. Fjárfestahópurinn sem taldi rúmlega 100 aðila, er fjölbreyttur og nær því markmiði að breikka fjárfestahópinn í skuldabréfum ríkissjóðs. Viðtökur endurspegla mikið traust fjárfesta á efnahags- og ríkisfjármálum á Íslandi og á þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur sett fram.“

Vaxtakjör ríkissjóðs í þessu útboði eru umtalsvert betri en í síðustu útgáfu, en útgáfur ríkissjóðs eru verðlagðar með hliðsjón af millibankavöxtum (Mid-swap rate). Álagið á millibankavexti nú er 42 punktar, en var 95 punktar í grænu útgáfu ríkissjóðs á síðasta ári sem var til 10 ára. Álagið á ríkissjóð hefur farið lækkandi þrátt fyrir óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum og jafnvel batnað meira en hjá sambærilegum útgefendum með svipað lánshæfismat.

„Útgáfan nú er í samræmi við þá stefnu í lánamálum ríkissjóðs og miðar að því að ríkissjóður sé reglulegur útgefandi á alþjóðamörkuðum. Sagan sem við höfum að segja þykir góð í samanburði við það sem margar aðrar þjóðir eru að glíma við; góður hagvöxtur og hagvaxtarhorfur, lækkandi verðbólga, aukin fjölbreytni í útflutningi og sjálfbærni og bætt lánshæfismat," segir Daði Már Kristófersson.

Aðrar fréttir

Tilkynning um útboð ríkisbréfa - RIKB 27 0415 - RIKB 42 0217
Flokkur RIKB 27 0415 RIKB 42 0217
ISIN IS0000036291 IS0000033884
Gjalddagi 15.04.2027 17.02.2042
Útboðsdagur 23.05.2025 23.05.2025
Uppgjörsdagur 28.05.2025 28.05.2025
10% viðbót 27.05.2025 27.05.2025

Á útboðsdegi, milli kl. 10:30 og 11:00, fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins á ríkisbréfum í þeim flokkum, með þeim ISIN númerum og með þeim gjalddögum sem fram koma í töflunni hér að ofan. Greiðslur fyrir ríkisbréfin þurfa að berast Seðlabankanum fyrir kl. 14:00 á uppgjörsdegi og verða bréfin afhent rafrænt sama dag. Um 10% viðbótarkaupréttinn gildir 6. gr. í almennum útboðsskilmálum ríkisbréfa.

Að öðru leyti er vísað til lýsingar skuldabréfaflokksins og almennra útboðsskilmála ríkisbréfa á heimasíðu Lánamála ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Oddgeir Gunnarsson, Lánamálum ríkisins í síma 569 9635.

Tilkynning um útboð ríkisvíxla - RIKV 25 0820 - RIKV 25 1119
Flokkur RIKV 25 0820 RIKV 25 1119
ISIN IS0000037216 IS0000037547
Gjalddagi 20.08.2025 19.11.2025
Útboðsdagur 19.05.2025 19.05.2025
Uppgjörsdagur 21.05.2025 21.05.2025

Á útboðsdegi, milli kl. 10:30 og 11:00, fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins á ríkisvíxlum í þeim flokkum, með þeim ISIN númerum og með þeim gjalddögum sem fram koma í töflunni hér að ofan. Greiðslur fyrir ríkisvíxlana þurfa að berast Seðlabankanum fyrir kl. 14:00 á uppgjörsdegi og verða bréfin afhent rafrænt sama dag.

Að öðru leyti er vísað til almennrar lýsingar íslenskra ríkisvíxla og almennra útboðsskilmála á heimasíðu Lánamála ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Oddgeir Gunnarsson, Lánamálum ríkisins í síma 569 9635.